Við heyrðum í Ásmundur Helgason á dögunum, og fengum hann til að segja okkur frá sinni uppáhalds flugu, sem og hann gerði eins og honum einum er lagið Njótið!

Nýja uppáldið mitt

Frá því ég byrjaði í fluguveiðinni hef ég nokkrum sinnum skipt um uppáhaldsflugu. Fyrst var það Þýska Snældan, kannski vegna þess að ég fékk fyrsta flugulaxinn minn á hana og marga síðan. En er svosum hættur að mestu að nota hana. Snældan fer bara undir ef örvænting er orðin alger. Svo var ég afar hrifinn af Rauðri Frances með kón um tíma og hún fær reglulega að blotna hjá mér. Síðan komu eigin flugur sterkar inn um tíma og þá sérstaklega fluga sem ég kalla N29 (eftir heimilisfanginu mínu). Hún er mitt á milli Collie Dog og Night Hawk í útliti og nota aðallega númer 12 og 14 af henni. N29 hefur gefið mér margar góðar stundir við bakkann, það er eitthvað aukakikk í því að veiða á eigin flugur.
Sú fluga sem ég held þó mest upp á í dag er Haugurinn. Bæði er hún gullfalleg og svo svínvirkar hún. Ég nota aðallega Hauginn á silfurkrók, þríkrækju númer 14 eða 16. Mér finnst hún virka allt sumarið, bæði snemma og seint. Og hún virkar um allt land, sem er ekki sjálfgefið. N29 hefur virkað mjög vel í Laxá í Aðaldal og stundum í Elliðaánum en ég hef ekki enn fengið fisk á hana á Vesturlandi, nema í Norðurá. Íbúar Haukunnar, Langár og Hítarár hafa sem dæmi ekki viljað líta við henni. Haugurinn hins vegar virðist virka hvar sem er, bæði fyrir norðar og vestan. Eins og sjá má af þessu rausi þá hafa flugurnar farið minnkandi með tímanum. Það er því dálítið erfitt að veiða með sumum, sem vilja helst bara nota stóras Sunray (þú veist hver þú ert!).

Stutt saga af Haugnum.

Við Gunni bróðir fórum í Haukuna til að taka upp fyrir Veiðikofann. Fengum að vera þar part úr degi og því mikilvægt að nýta tímann vel. Fengum að fara í Lalla og þar þóttist ég vita nokkurn veginn hvar fiskurinn lá. Setti Hauginn nr. 16 undir og þurfti ekki að bíða lengi; hann tók í fyrsta rennsli. Geggjað! Og allt náðist á mynd. Þá var bara

málið að Gunni fengi fisk og við gætum farið heim. Hann fer út í með eitthvað annað en Hauginn og allt of stórt. Og ekkert gekk. Við fórum svo á fleiri staði en ekki fékk Gunni fisk – og ekki vildi hann smækka fluguvalið. Nú fóru skuggarnir að lengjast og því góð ráð að verða dýr. Síðasta hálftímann fórum við aftur í Lalla. Nú skyldi reynt til þrautar. Ég fæ Gunna til að prófa Hauginn. Hann langar að fá númer 12 en ég harðneita og hnýti númer 16 undir hjá honum. Gunni fer út í og setur strax í fisk! Frábært – nú var bara að landa …. sem gekk ekki – hann missti laxinn. Tíminn að renna út og okkur vantar fisk í þáttinn. Þetta er síðasti tökudagurinn og ekki nema korter eftir. Nú var að duga eða drepast – og höndla tilfinningarnar, sem voru blanda af örvæntingu, pirringi og ákveðni. Gunni fer aftur efst í staðinn og byrjar að kasta. Fimm mínútur eftir (ótrúlegt hvað tíminn líður hratt síðasta hálftímann á hverri vakt!) og Gunni er kominn á heita staðinn. Hann nær fullkomnu kasti, lætur ána taka fluguna og byrjar svo að strippa á hárréttum tíma. Um leið er Haugurinn negldur! Glæsilegt! Gunni með hjartað í brókunum – þennan mátti ekki missa. Klukkan orðin rúmlega stopp þegar glæsilegur lax rennur í háfinn. Hann náði laxi á síðasta tökudegi, á síðasta stað og á síðustu mínútu. Haugurinn bjargaði deginum, bjargaði þættinum og bjargaði geðheilsunni 😀

Hér fyrir neðan er svo Gunnar Helgason með fiskinn úr Lalla!

Image may contain: 1 person, smiling, outdoor and water