Við Heyrðum í hressum Veiðimanni, guide og veiðisnappara á dögunum. Við spurðum hann út í veiðidelluna, Snappið og upphafið af þessu öllu saman.

Valdimar Heiðar Valsson (Maddi Catch)

Aldur. 36 ára 

Akureyri

Ég man vel hvernig það kom til að ég byrjaði að snappa um veiði. Ég var staddur út á Spáni í fríi með fjölskyldunni þegar vorveiðin stóð sem hæðst í fyrra og hver ísaldarurriðinn á fætur öðrum var að veiðast á Þingvöllum. Ég var gjörsamlega að farast mig langaði svo að veiða sjálfur en þar sem ég gat það ekki, þá vildi ég geta fylgst með og bað því menn sem voru að veiða að senda mér snöpp af veiðinni. Ég þekkti marga sem voru að veiða á þessum tíma og fékk því flottar myndir. Ég fékk svo leyfi til að setja þær á snappið mitt og þar með var kominn hálfgerð fréttaveita sem kom með fréttir af bakkanum nánast um leið. Snappið varð strax mjög vinsælt og þá fór ég að spá hvað ég vildi gera við snappið. Ég var strax ákveðinn í að ég myndi nýta vinsældir snappsins til að reyna auka áhuga yngra fólks á veiði og mögulega leiðbeina þeim sem eru að taka sín fyrstu skref. Í dag er snappið þannig að ég sýni mest frá minni veiði en ég tek líka fyrir efni sem ég er beðinn um. Ég hef t.d. verið beðinn um að fara yfir veiðiaðferðir, tala um ákveðin veiðisvæði o.fl. Í vor var ég síðan með lið sem kallaðist “top 3” þar sem ég fór yfir þær flugur sem ég taldi vera bestu flugurnar í hverjum flokki (púpur, þurrflugur, straumflugur fyrir urriða, straumflugur fyrir bleikju) ég komst aldrei í það að taka laxaflugurnar fyrir. Ég mun halda áfram að leiðbeina þeim sem leita til mín ásamt því að sýna frá minni veiði. Ég mun einnig kynna töluvert af veiðisvæðum á snappinu og fara yfir hvernig ég tel best að veiða ánna og veiðistaðina. Þannig að ef þið eruð með veiðisvæði eða jafnvel einhvern búnað sem þið mynduð vilja að ég myndi kynna eða prófa að þá endilega hafið samband.

Hvenær og afhverju byrjaðir þú að veiða ?

Ég er frá Hauganesi sem er 150 manna sjávarþorp fyrir norðan. Það var ekki mikil afþreying á svona litlum stað þannig það var annað hvort að veiða á bryggjunni eða leika sér í fótbolta. Ég hafði mjög gaman að báðu og veiddi mikið á bryggjunni sem polli. Ég datt svo aðeins inn í sjóstangveiðina þegar ég varð eldri og keppti alltaf á nokkrum mótum í nokkur ár. Báðir foreldrar mínir voru í því sporti þannig ég prufaði það og hafði gaman af. En síðan dett ég eiginlega alveg úr veiði upp úr tvítugt og snerti ekki veiðistöng fyrr en ég fór að nálgast þrítugt. Þar finnst mér ég hafa tapað dýrmætum tíma. En ég byrja svo í fluguveiði í kringum 2011 og var það núverandi yfirmaður minn Pétur Broddason sem kynnti mig fyrir fluguveiði og kann ég honum bestu þakkir fyrir það. Ég reyni að sjá sjarmann við allar tegundir veiðiaðferða, það er ekkert rétt eða rangt í því hvort við notum flugu, maðk eða spún heldur verðum við að bera virðingu fyrir náttúrunni, lífríknu og þeim veiðireglum sem eru í gildi hverju sinni. Ég tel þetta vera bestu útiveru sem hugsast getur og að vera að veiða í góðu veðri er gott fyrir bæði líkama og sál!

Hvað ertu búinn að gæda lengi og hvar ?

Ég er þessi ALL-IN týpa og ég fór ALL-IN í fluguveiðina. Fluguveiðin gjörsamlega hel tók mig og varð mitt passion þannig ég stúderaði hana eins mikið og ég gat. Ég las allt sem ég komst í, horfði endalaust á efni tengt fluguveiði þannig það tók mig ekki langan tíma að ná góðum tökum á þessu sporti. Ég byrjaði svo að gæda 2013 að mig minnir. Mest hef ég gædað hérna fyrir norðan. Ég hef gædað mikið dagstúra hérna í ánum í eyjafirði. Ég kann vel við það að fara út á morgnana og vera kominn heim til mín seinnipartinn. Síðan hef ég gædað mikið í mýrarkvísl, silungasvæðunum í Laxá í Aðaldal (Presthvamm, Hraun og Torfunum), Jöklu svo eitthvað sé nefnt. Ég notað sumarfríin úr aðalvinnunni til að gæda sem er líklega klassískt fyrir íslending að nýta fríið sitt til að vinna aðra vinnu. En í sumar verður sú breyting að ég mun gæda afskaplega lítið. Ég og fjölskyldan ákváðum að nú skyldi bara tekið sumarfrí og reynt að lifa og njóta, já og kanski veiða meira sjálfur fyrst maður er ekki alltaf að gæda 🙂

 

Uppáhalds fluga ?

Þetta er gríðarlega erfið spurning. Maður gerir eiginlega ekki upp á milli barnanna sinna. En ég er afskaplega glaður og stoltur ef einhver fiskur vill bíta á flugurnar sem ég hnýti. Það gefur þessu alveg extra ánægju.

Eftirminnilegasti Fiskur?

Fyrst upp í huga minn kemur 62 cm urriðinn sem ég fékk á Klinkhammer í Lónsá seinasta sumar. Það var allt svo geggjað við þennan fisk. Ég sé hann vaka alveg við hinn bakkan en ég efaðist um að ég næði að kasta svo langt því áin var djúp og ekki hægt að vaða nær honum. Ég læt samt vaða og kasta af öllu afli. Flugan lendir rétt fyrir framan hann og bamm hann ræðst á fluguna. Ég bregst við en vegalengdin var svo mikil að ég sá bara línuna fara upp og ljósárum seinna var hún komin að flugunni og þá var fiskurinn á bak og burt. Ég man hvað ég var svektur. Ég hélt ég væri búinn að missa tækifærið að. Félagi minn sagði mér að reyna aftur sem ég gerði. Ég næ fullkomnu kasti vel fyrir framan hann. Ég sé að það kemur hreyfing á hann og það ólgar í átt að flugunni. Það var ekkert í stöðunni annað en að bregðast við áður en hann tæki fluguna og vona það besta. Ég reisti stöngina og sá línuna spítast upp og þegar komið var að flugunni, þá nelgdi hann fluguna. Þessi urriði gaf mér svakalega viðureign. Það var ekki bara það að hann var stór og tekinn á þurrflugu heldur var það allt við þetta, fallegur dagur, erfiðar aðstæður, lengsta kast sem ég hef nokkurntíman sett í fisk á þurrflugu. En ég verð einnig að nefna vorveiði í Brunná fyrir nokkrum árum síðan þegar ég landaði 74cm, 78cm og 79cm fiskum í 5 köstum. Ég held að það sé eitthvað mjög sérstakt og ég eigi aldrei eftir að upplifa aftur.

 

Uppáhalds veiðistaður ?

Þetta er svakalega erfið spurning en ég held ég verði að segja Lónsá. Þessi á er perla að svo mörgu leiti. Þú átt möguleika á að veiða bleikju, urriða, sjóbirting og stöku lax. Áin er fjölbreytt með mikið af fallegum veiðistöðum. Svo kann ég bara virkilega vel við mig á svona afskektum stöðum í ósnortri náttúru.

Lax eða silugur ?

Ég er meiri silungamaður. Að egna fyrir silung finnst mér skemmtilegra en lax. Vissulega er fátt betra en að fá flottan 2 ára lax en heilt yfir að þá kýs ég silunginn frekar. Ég viðurkenni að verð á veiðileyfum spilar líka inn í. Mér finnst bara þægilegra og afslappaðra að fara í silungsveiði á heimsmælikvarða fyrir kanski 15 þúsund krónur heldur en að eyða stórfjár í Laxveiðileyfi. Ég hef freystast til þess að gera það og þá fann ég fyrir pressu í veiðitúrnum sem ég kann ekki við og finn ekki fyrir öllu jafna.

Mottó í veiðinni?

Hafa gaman og njóta hvers einasta þáttar í veiðinni, hvort sem það er veiðin sjálf, útiveran eða félagsskapurinn.

 

Góð ráð fyrir byrjendur í sportinu?

  Já ég hef komið því ráði áfram sem mér var gefði strax. Kaupið ykkur góðar græjur strax allavega ekki það ódýrasta. Búnaðurinn gefur mikilvæga upplifun af veiðinni og með góðar græjur færðu betri upplifun af veiðinni heldur en að vera reyna veiða með hálf vonlausum græjum. Svo er mikilvægt að kúpla sig út úr hversdagsleikanum þegar maður er að veiða, vera á staðnum hugarfarslega og njóta alls þess sem veiðin hefur upp á að bjóða.

Eitthvað að lokum?

Bara takk fyrir að sýna snappinu mínu og því sem ég er að gera áhuga. Ég óska öllum veiðimönnum og konum gleðilegs veiðisumars. Megi veiðin í sumar færa ykkur mikla gleði og nýjar veiðisögur til að segja vinum og vandamönnum.